Siðareglur JKFÍ
Jógakennarafélag Íslands (framvegis JKFÍ) byggir á stöðlum Yoga Alliance of America (framvegis YA) og fylgir einnig siðareglum þeirra samtaka.
Í siðareglunum eru sett fram viðmið um ásættanlega, æskilega, skylduga og bannaða hegðun, bæði fagmannlega og siðferðislega í takt við grunngildi jóga.
Regla 1
Félagsmenn halda sig við lög og reglur þess lands sem þeir starfa í. Félagsmenn greiða löglega skatta af innkomu og starfa í löglegu húsnæði sem hefur hlotið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti viðkomandi staðar.
Regla 2
Félagsmenn halda kennslunni faglegri. Þeir fara ekki út fyrir sitt svið sem jógakennarar, setjast ekki í sæti annarra stétta eins og til dæmis sálfræðinga eða sjúkraþjálfara.
Regla 3
Félagsmenn mega ekki áreita, hvorki kynferðislega eða á annan hátt, þátttakendur í jógatímum, nemendur, starfsmenn, vinnufélaga, aðra félagsmenn, aðra jógakennara, önnur samtök jógakennara, aðra skóla, jógastöðvar eða almenning, hvorki í persónu né á vefmiðlum. Félagsmenn nota ekki niðrandi eða særandi orð og reyna ekki að hafa áhrif á, hóta eða stjórna öðrum.
Regla 4
Félagsmenn valda ekki skaða. Hér tökum við regluna um ahimsa með staðfestu. Við völdum ekki skaða. Félagsmaður verður að gera sitt besta til að bera ábyrgð á því að valda ekki skaða, hvorki viljandi né af gáleysi, hjá iðkendum, nemendum, starfsfólki, samstarfsfólki, öðrum meðlimum, öðrum kennurum eða öðrum borgurum. Reglan bannar einnig, öryggisins vegna, að félagsmenn séu undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við kennslu, að frátöldum löglegum lyfjum sem notuð eru að læknisráði og uppáskrifuð af löggildum lækni. Félagsmenn koma einnig eftir bestu vitund í veg fyrir að þátttakendur í tíma séu að nota eða séu undir áhrifum slíkra efna. Regla þessi er algild óháð öllum hefðum, línum eða stílum af jóga.
Regla 5
Félagsmenn þjóna öllum jafnt og gera ekki upp á milli fólks á grundvelli kyns, litarháttar, trúarbragða eða annars sem gæti flokkað fólk niður í ákveðna hópa.
Regla 6
Félagsmenn virða viðeigandi samskipti kennara við nemendur.
a. Félagsmenn aðstoða ekki með líkamlegri snertingu nema hann hafi fyrirfram fengið til þess leyfi frá viðkomandi nemanda.
b. Rómantísk sambönd skal forðast meðan annar er nemandi og hinn kennari. Komi upp slíkar tilfinningar skal kennarinn sjá til þess að nemandinn finni annan kennara áður en hlutirnir ganga lengra.
c. Félagsmenn verða að fara eftir lögum og reglum þegar þeir ráða starfskraft, hvort sem um er að ræða nemendur eða utanaðkomandi. Ef um er að ræða vinnu án greiðslu skal útbúa alla samninga skriflega til að koma í veg fyrir mögulegan misskilning.
d. Félagsmenn fá samþykki áður en myndir eru teknar af nemendum eða upptaka fer fram í sal og einnig er samþykki nauðsynlegt fyrir birtingu slíks efnis á veraldarvefnum.
Regla 7
Höldum samskiptum heiðarlegum.
Hér á við að félagsmenn segja satt frá menntun sinni og gefa ekki í skin neitt annað en það sem er satt. Félagsmenn gefa þeim heiðurinn sem hann eiga, taka ekki hugmyndir annarra og bera fram sem eigin hugmyndir. Til kennslu nota félagsmenn ekki ritvarið efni annarra án leyfis.
Siðareglur þessar eiga við alla félagsmenn í aðstæðum þar sem viðkomandi kemur fram sem jógakennari, hvort sem um er að ræða kennslu eða samskipti og á hvaða vettvangi sem er þ.m.t. á veraldarvefnum.
Við inngöngu í félagið er félagsmönnum ljóst að verið er að samþykkja þessar reglur. Félagið tekur sér leyfi til að endurskoða og uppfæra þessar reglur eftir þörfum og verður félagsmönnum alltaf gert kunnugt um þegar slíkt gerist. Setji félagsmenn sig ekki á móti uppfærslu þessara reglna telst hann samþykkur þeim.
Tilkynningar um hugsanlegt brot á siðareglum þessum má senda til stjórnar JKFÍ. Stjórn félagsins tekur fyrir málsmeðferð hugsanlegra brota á þessum siðareglum á stjórnarfundum. Við fyrsta brot á reglum þessum er félagsmanni veitt áminning. Við endurtekið brot á hann á hættu að gerast brottrækur úr félaginu.
Siðareglur þessar voru samþykktar á fundi stjórnar JKFÍ 18.01.2021.